Sautján ára stigameistari?

Gísli Sveinbergsson.
Gísli Sveinbergsson. mbl.is/Styrmir Kári

Hinn 17 ára gamli Gísli Sveinbergsson úr Keili verður stigameistari karla á Eimskipsmótaröðinni í golfi og Sunna Víðisdóttir úr GR mun fagna sigri í kvennaflokki í lok tímabilsins.

Svona verður alla vega niðurstaðan ef sérstök spá GSÍ rætist en sambandið fékk fjölda sérfræðinga í lið með sér til að tippa á líklegustu sigurvegarana í sumar.

Sunna fékk 53 stig af 80 mögulegum en Gísli 51 stig. Næstar á eftir Sunnu urðu Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (46), Ragnhildur Kristinsdóttir, GR (39), Karen Guðnadóttir, GS (31) og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR (17). Næstir á eftir Gísla urðu Kristján Þór Einarsson, GM (46), Haraldur Franklín Magnús, GR (26), Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR (20) og Axel Bóasson, GK (19).

Þeir sem komu að kosningunni höfðu í huga að kylfingunum mun ganga misvel að komast á öll mótin vegna annarra móta erlendis.

Leikið verður á sex mótum á mótaröðinni og verður í fyrsta sinn leikið á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Fyrsta mótið í ár fer fram í Leiru um helgina og viku síðar verður leikið í Vestmannaeyjum. Þriðja mótið er í Mosfellsbæ 12.-14. júní og fjórða mótið er Íslandsmótið í holukeppni á Jaðarsvelli á Akureyri 19.-21. júní.

Fimmta mótið er sjálft Íslandsmótið í höggleik sem fram fer á Garðavelli á Akranesi 23.-26. júlí, og lokamótið verður á Urriðavelli 22.-23. ágúst.

Þetta er í 27. sinn sem keppt er um stigameistaratitilinn á Eimskipsmótaröðinni. Kristján Þór Einarsson úr GM og Karen Guðnadóttir úr GS eiga titil að verja.

Sunna Víðisdóttir.
Sunna Víðisdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert