„Gaur, vertu jákvæður“

Jordan Spieth styður sig við kylfusveininn Michael Greller eftir að …
Jordan Spieth styður sig við kylfusveininn Michael Greller eftir að hafa fengið fugl á 18. holunni í nótt. AFP

Jordan Spieth segist hafa verið búinn að útiloka það að geta náð sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem lauk í nótt.

Spieth lauk keppni á samtals 5 höggum undir pari en hann var í næstsíðasta ráshópnum. Dustin Johnson gat tryggt sér sigur með því að setja niður pútt á 18. flötinni, en þrípúttaði og kastaði frá sér tækifærinu til að landa sínum fyrsta risatitli. Þess í stað vann Spieth sinn annan risatitil í röð, en hann vann Masters í apríl.

Spieth var þakklátur kylfusveini sínum, Michael Greller, sem hjálpaði honum að halda ró sinni á meðan að þeir biðu eftir að Johnson lyki keppni.

„Ég lokaði dyrunum og við vorum komnir í burtu frá öllum myndavélum þegar þetta gerðist. Michael sagði bara: Gaur, vertu jákvæður,“ sagði Spieth eftir sigurinn.

„Ég sat þarna og hugsaði með mér: Dustin er að fara að klára þetta. Hvað var ég að gera? Hvernig gat ég látið þetta gerast? En Michael sagði: Vertu jákvæður, maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði Spieth.

„Ég sat með honum þegar annað púttið klikkaði. Ég starði á sjónvarpsskjáinn og hann þagði líka. Við vissum ekki hvað við ættum að gera. Síðan stóðum við upp og hann sagði: Gaur, gefðu mér faðmlag. Þér tókst þetta!“

Gifti sig á vellinum

Greller þekkir vel til á Chambers Bay-vellinum því þar var hann oft kylfusveinn hjá áhugakylfingum á milli þess sem hann kenndi stærðfræði í menntaskóla, áður en leiðir þeirra Spieth lágu saman.

„Þetta var stórkostlegt. Þetta hefði ekki getað verið betri staður fyrir Michael. Hann gifti sig hérna og á því einhverjar sínar bestu minningar héðan. Núna getur hann bætt við þær stundir. Hann hefur líklega aldrei staðið sig betur en í þessari viku. Á Masters var ég í miklu stuði, sló boltann frábærlega og allt gekk upp. Hann kom mér hins vegar í gegnum þessa viku, þegar ég vildi svekkja mig á því að hlutirnir skyldu ekki ganga upp,“ sagði Spieth.

Jordan Spieth stillir sér upp á mynd með glaðbeittum aðdáendum, …
Jordan Spieth stillir sér upp á mynd með glaðbeittum aðdáendum, eftir sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert