Möguleikinn á alslemmunni enn fyrir hendi

Jordan Spieth með bikarinn í mótslok.
Jordan Spieth með bikarinn í mótslok. AFP

Eftir að ljóst varð að bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth hafði unnið Opna bandaríska meistaramótið á Chambers Bay-vellinum í Washingtonríki í fyrrinótt fór hver einasti golfsérfræðingur að fletta í sögubókunum enda sigurinn sögulegur!

Sigurinn gerir hann að yngsta manninum frá upphafi til þess að vinna Masters-mótið og Opna bandaríska meistaramótið á einu ári. Spieth, sem verður 22 ára í júlí, er einnig sá yngsti til þess að vinna tvö risamót fyrir 22 ára aldur en Gene Sarazen var tvítugur þegar hann vann tvö mót árið 1922.

Þá er Spieth einnig yngsti maðurinn til þess að vinna opna bandaríska meistaramótið frá því að goðsögnin Bobby Jones gerði það árið 1923. Jones var einnig sá síðasti og eini til þess að vinna alslemmu; að standa uppi sem sigurvegari á öllum risamótunum á einu ári.

Það voru ekkert of margir sem spáðu því að Spieth myndi vinna mótið en hann var hins vegar alltaf nefndur til sögunnar sem líklegur sigurvegari þar sem hann hafði unnið fyrsta risamót ársins á Mastersmótinu á Augusta. Þar spilaði Spieth algjörlega óaðfinnanlegt golf en annað var upp á teningnum um helgina á Chambers Bay. Vellirnir gætu varla verið ólíkari.

Spieth hefur nú sýnt að hann getur brugðið sér í allra kvikinda líki á golfvellinum og því er alls ekki fráleitt að halda því fram að hann geti unnið alslemmuna. Hann yrði þá sá fyrsti til þess að vinna hana í núverandi mynd – þegar Jones gerði það árið 1930 voru tvö áhugamannamót hluti af „risamótunum“ fjórum. Nú eru þau hins vegar öll atvinnumannamót.

Það er ekki síst ótrúleg þrautseigja sem menn taka eftir í fari Spieths. Eftir tvöfaldan skolla á 17. holu og sigurinn í hættu svaraði hann með fugli á 18. sem tryggði sigurinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert