Ég mun vinna mót á ný

Tiger Woods á mótinu í Virginíu.
Tiger Woods á mótinu í Virginíu. AFP

Tiger Woods, sem áður var besti kylfingur heims, kveðst viss um að hann sé á leiðinni á toppinn á nýjan leik eftir að hann lauk keppni á Quick Loans PGA-mótinu í Virginíu í kvöld. Þar lék hann á 68 höggum, þremur undir pari vallarins, og spilaði í heildina á átta höggum undir pari á mótinu.

Slæmur laugardagur kom í veg fyrir að Tiger blandaði sér í baráttu um verðlaunasæti mótsins en hann er í nítjánda sæti þegar ellefu af fimmtán efstu mönnum á mótinu eiga eftir að ljúka keppni í kvöld. Troy Merritt var með tveggja högga forystu þegar hann átti fimm holum ólokið.

Tiger lék annars á 68, 66 og 68 höggum á fimmtudegi, föstudegi og sunnudegi en í gær lék Tiger hinsvegar á 74 höggum.

Hann er nú í 266. sæti heimslistans en telur sig vera á réttri braut á ný, þrátt fyrir að hafa aðeins einu sinni náð að vera meðal 25 bestu á átta PGA-mótum á tímabilinu og þrívegis ekki komist í gegnum niðurskurð.

„Þetta er þróun - ferli þar sem ég tek eitt lítið skref í einu og byggi ofan á það hægt og bítandi. Ég mun smám saman komast á það stig að vera í baráttu um efstu sætin og að lokum fer ég að vinna golfmót á ný," sagði Tiger við fréttamenn eftir að hann lauk keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert