Aron sigraði í Einvíginu á Nesinu

Vel fór á með þeim Aroni Snæ Júlíussyni og Birgi …
Vel fór á með þeim Aroni Snæ Júlíussyni og Birgi Leifi Hafþórssyni á lokaholunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Snær Júlíusson úr GKG stóð einn eftir að loknum holunum níu í góðgerðargolfmótinu Einvíginu á Nesinu sem Nesklúbburinn og DHL stóðu fyrir 19. árið í röð í dag. 

Aron Snær Júlíusson og Birgir Leifur Hafþórsson félagi hans úr GKG voru einir eftir að loknum átta holum en hinn 18 ára gamli Aron lét sér hvergi bregða og hafði betur gegn sexfalda Íslandsmeistaranum á síðustu holunni. 

Báðir fengu þeir par á holuna en Birgir náði parinu þrátt fyrir að hafa slegið út fyrir vallarmörk í upphafshöggi sínu. Tók hann því þriðja höggið af teig á þessari stuttu par 4 holu og setti það nærri því í holu. Púttið rataði rétta leið og því tók við bráðabani eða Shoot out, sem gerir mótið óvenjulegt, til að fá fram úrslit. Þar sló Aron nær holu en Birgir af 130 metra færi. 

Nóg er að gera hjá Aroni um þessar mundir. Hann var með á Íslandsmótinu á Akranesi um síðustu helgi og komst þar í gegnum niðurskurðinn. Að því loknu fór hann til Austurríkis og hafnaði þar í 15. sæti á nokkuð sterku áhugamannamóti og er nýkominn til landsins.

Eftirtaldir kylfingar (í stafrófsröð) tóku þátt í ár:

Aron Snær Júlí­us­son, Birg­ir Leif­ur Hafþórs­son, Björg­vin Sig­ur­bergs­son, Helga Krist­ín Ein­ars­dótt­ir, Hlyn­ur Geir Hjart­ar­son, Ólaf­ur Björn Lofts­son, Ragn­hild­ur Sig­urðardótt­ir, Signý Arn­órs­dótt­ir, Stefán Már Stef­áns­son og Þórður Rafn Giss­ur­ar­son. 

Að mótinu loknu afhenti fulltrúi DHL fulltrúa Bugl (Barna og unglingageðdeild Landspítalans) eina milljón króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert