John Daly fluttur af teig á sjúkrahús

John Daly nýtur enn mikillar hylli bæði í Bandaríkjunum og …
John Daly nýtur enn mikillar hylli bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi þrátt fyrir að fá sjaldnar tækifæri til að leika á PGA- eða Evrópumótaröðinni. AFP

Rokkstjarna golfsins, John Daly, var fluttur með sjúkrabíl undir læknishendur um helgina í miðju golfmóti í Bandaríkjunum. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum féll saman lunga í kappanum sem í eina tíð sigraði tvívegis á risamótum í íþróttinni.

Daly er 49 ára gamall og ekki þekktur fyrir heilsusamlegt líferni. Hann mun hafa mætt daginn eftir og haldið leik áfram á mótinu en hann hneig niður á 18. og síðustu brautinni á laugardaginn.

„Ég hafði skemmt mér konunglega en skyndilega, búmm, hrundi ég niður á 18. teig. Næst man ég eftir mér í sjúkrabílnum.“

Samkvæmt AP-fréttastofunni virðist Daly ekki láta af gömlum ósið þrátt fyrir þessa lífsreynslu sem hann viðurkenndi að hafa hrætt sig. Til hans sást í golfskálanum daginn eftir með sígarettu í munnvikinu.

Á Twitter sagðist Daly telja að veikindin tengdust rifbeinsbroti sem hann varð fyrir árið 2007. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert