Sló tvö draumahögg á sama hringnum

Brian Harman fékk tvo ása á skorkortið sitt í gær.
Brian Harman fékk tvo ása á skorkortið sitt í gær. AFP

Sá ótrúlegi atburður átti sér stað á Barclays-mótinu á PGA-mótaröðinni í golfi í gær að bandaríski kylfingurinn Brian Harman fór tvívegis holu í höggi á lokahring mótsins. 

Er þetta aðeins í þriðja skipti í langri sögu PGA-mótaraðarinnar sem kylfingur fer oftar en einu sinni holu í höggi á sama hringnum. Harman fór 3. og 14. holu á aðeins einu höggi en hann hafði aldrei áður farið holu í höggi í móti.

Yusaku Miyazato fór einnig tvívegis holu í höggi á sama hringnum á mótaröðinni árið 2006 en fyrstur til að ná þessu á PGA-mótaröðinni var áhugamaðurinn Bill Whedon árið 1955.

Þrátt fyrir ernina tvo lék Harman „aðeins“ á 68 höggum og hafnaði í 30. sæti á mótinu. Jason Day sigraði á 19 undir pari en hann sigraði á dögunum á PGA-meistaramótinu, síðasta risamóti ársins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert