Vélmenni fór holu í höggi (myndskeið)

Áhorfendur á Phoenix Open í gær.
Áhorfendur á Phoenix Open í gær. AFP

Vélmenni fékk að spreyta sig á par 3 holunni frægu á Scottsdale-vellinum í Arizonaríki í Bandaríkjunum. Var það í aðdraganda Phoenix Open sem hófst í gær.

Boltinn fór beina leið í holuna frá teignum og er talið að þetta sé í fyrsta skipti sem vélmenni tekst að fara holu í höggi. Sjón er sögu ríkari.

Við þetta má bæta að um er að ræða 16. holu vallarins. Er stemningin í kringum hana mjög þekkt á PGA-mótaröðinni. Þegar Phoenix Open fer þar fram þá raða áhorfendur sér í kringum brautina og láta vel í sér heyra. Mun hærra en gengur og gerist á golfmótum. Skapast mikil stemning ef kylfingar slá góð högg inn á flötina. Þegar Tiger Woods var nýkominn fram á sjónarsviðið á mótaröðinni tókst honum að fara holu í höggi á 16. holunni fyrir framan hina hressu áhorfendur á Phoenix Open. Allt varð vitlaust á áhorfendapöllunum eins og meðfylgjandi myndskeið sýnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert