Willett kominn í hóp tíu bestu

Danny Willett er í skýjunum, skiljanlega.
Danny Willett er í skýjunum, skiljanlega. AFP

Danny Willett er kominn í hóp tíu bestu kylfinga heims samkvæmt nýjum heimslista sem gefinn var út í dag, í kjölfar þess að Englendingurinn fagnaði sigri á Masters-mótinu í gær.

Willett er í 9. sæti á nýja listanum en það er hans besta staða frá upphafi. Eftir Masters-mótið í fyrra var hann í 48. sæti en hann hefur verið á hraðri uppleið síðan. Willett gat leyft sér að skála í gærkvöldi eftir sigurinn óvænta.

Hinn ástralski Jason Day er áfram í efsta sæti heimslistans, á undan Jordan Spieth og Rory McIlroy sem koma næstir. Day og McIlroy enduðu í 10.-14. sæti á Masters, samtals á höggi yfir pari hvor um sig, eða sex höggum á eftir Willett. Spieth varð í 2. sæti eftir að hafa lengi haft forystuna en kastað henni frá sér með eftirminnilegum hætti, en hann lék samtals á tveimur höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert