Stoppar Zika einn þann besta?

Rory McIlroy með sigurlaunin á Opna írska mótinu.
Rory McIlroy með sigurlaunin á Opna írska mótinu. AFP

Rory McIlroy, einn besti kylfingur heims, er enn að velta vöngum yfir því hvort hann eigi að taka þátt í Ólympíuleikunum í Ríó í sumar af ótta við Zika-veiruna sem getur valdið alvarlegum fæðingargalla hjá börnum ef mæður þeirra smitast á meðgöngunni.

McIlroy, sem er 27 ára gamall, var lengi að taka ákvörðun um hvort hann ætti að fara til Ríó því hann átti erfitt með að velja um hvort hann ætti að keppa fyrir hönd Breta eða Íra. Að lokum varð niðurstaðan sú fyrir tveimur árum að hann yrði fulltrúi Írlands á leikunum.

Nú er hann ekki viss um þátttöku sína þar sem hann og unnusta hans, Erica Stoll, eru farin að velta barneignum fyrir sér.

„Við munum huga að því á næstu tveimur árum og ég vil ekki gera neitt til að hafa áhrif á það," sagði McIlroy við breska fjölmiðla eftir að hafa unnið Opna írska mótið um helgina.

Tveir kunnir kylfingar, Vijay Singh og Marc Leishman, hafa hætt við keppni í Ríó vegna veirunnar en McIlroy kveðst enn vera spenntur fyrir því að fara.

„Eftir því sem tíminn líður langar mig meira þangað til að berjast um ólympíugullið. En ég hef lesið mikið um Zika-veiruna og það hafa birst greinar um að hún gæti verið hættulegri en áður var talið. En ég er alla vega á leið í bólusetningar á miðvikudaginn – og verð því að minnsta kosti ónæmur fyrir moskítóflugunum ef þær bíta mig þarna suður frá," sagði Mclroy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert