McIlroy fer ekki til Ríó vegna Zika-veirunnar

McIlroy verður ekki í Ríó.
McIlroy verður ekki í Ríó. AFP

Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy hefur sent frá sér tilkynningu þess eðlis að hann muni ekki keppa á Ólympíuleikunum, sem hefjast í Ríó í ágúst. Ástæðan er ótti við Zika-veiru.

Áður höfðu Fíjí-maðurinn Vijay Singh og Ástralinn Marc Leishman tilkynnt að þeir myndu ekki keppa á leikunum af sömu ástæðu.

„Heilsa mín og fjölskyldu minnar hefur forgang ofar öllu öðru. Þó að líkurnar á smiti séu afar litlar, eru þær engu að síður til staðar og það er áhætta sem ég er ekki tilbúinn að taka,“ sagði McIlroy í tilkynningu til fjölmiðla.

Zika veiran berst með moskítóflugum og smitast á milli manna þegar flugurnar sjúga blóð. Helstu einkenni sýkingarinnar eru hiti, útbrot, tárubólga og vöðvaverkir.

Aðeins um einn af hverjum fjórum sem smitast af veirunni sýnir einkenni en sérfræðingar hafa áhyggjur af hugsanlegum tengslum á milli veirunnar og fæðingar barna með dverghöfuð. Ekkert bóluefni er til gegn veirunni.

Rory McIlroy er 27 ára Norður-Íri sem hafði tilkynnt að hann ætlaði að keppa fyrir hönd Írlands á Ólympíuleikunum í stað þess að keppa fyrir lið Bretlands. Hann er í fjórða sæti heimslistans í golfi og hefur unnið fjögur risamót á glæstum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert