Ólafía í frábærri stöðu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Íslandsmeistarinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í frábærri stöðu fyrir lokahring dagsins á fyrsta stigi úrtökumóta fyrir LPGA-atvinnumótaröðina í golfi í Bandaríkjunum. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er einnig á meðal þátttakenda.

Ólafía lék fyrstu tvo hringina á 68 og 71 höggi og er samtals á -5 í 6. sæti mótsins. Valdís Þóra er á +10 eftir tvo hringi en fyrsti hringur hennar upp á 81 högg setti verulegt strik í reikninginn. Valdís lék vel í gær eða á +1. Hún þarf að komast upp um 100 sæti í dag til þess að komast í gegnum niðurskurðinn en þangað fara í gegn 130 efstu kylfingarnir af samtals 350. Níutíu af þessum 130 komast svo inn á næsta stig úrtökumótsins.

Leikið er á þremur völlum í Kaliforníuríki, Dinah- og Palmer-völlunum á Mission Hills-golfsvæðinu og svo á Gary Player-vellinum í Westin Mission Hills. Gríðarlegur hiti er á svæðinu en á miðvikudag setti Ólafía Þórunn inn færslu á Facebook-síðu sína um að hitinn væri um 40 stig og að golfbílar væru leyfðir af þeim sökum.

Þeir 130 keppendur sem komast í gegnum niðurskurðinn á þessu móti eftir þrjá hringi hafa með þeim árangri tryggt sér keppnisrétt í Synmetra-atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum en sú mótaröð er sú næststerkasta þar í landi og með svipuðu sniði og LET Access-mótaröðin í Evrópu þar sem Valdís og Ólafía hafa báðar leikið. Ólafía er hins vegar með keppnisrétt á LET-Evrópumótaröðinni sem er sú sterkasta í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert