„Ég var alveg sultuslök“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari úr Golfklúbbi Reykjavíkur, heldur áfram að spila vel á golfvellinum. Ólafía sýndi stórbrotna spilamennsku á Íslandsmótinu á Akureyri í lok júlí þegar hún lauk leik á samtals ellefu höggum undir pari og lék þar best allra. Ólafía komst á sunnudagskvöldið í gegnum fyrsta stig úrtökumótanna fyrir bandarísku atvinnumannamótaröðina, LPGA. Lék Ólafía fjóra hringi á samtals sjö undir pari og hafnaði í 7. sæti.

„Já, ég myndi segja að þetta hafi verið í takti við spilamennskuna á Akureyri. Ég hélt áfram á sömu braut og í Íslandsmótinu. Þaðan tók ég með mér gott sjálfstraust. Skorið var frábært en það gat meira að segja verið betra. Ég get svo sem ekki kvartað,“ sagði Ólafía þegar Morgunblaðið náði sambandi við hana í gær. Hún var þá stödd í Los Angeles og til stóð að fljúga þaðan heim í dag, en mótið fór fram í Kaliforníuríki. Leikið var á þremur völlum, einn hringur á hverjum þar til keppendafjöldi var skorinn niður.

Gott veganesti

Færri komast að en vilja á mótaröðunum í golfinu. Fram undan er því mikil barátta hjá Ólafíu þrátt fyrir að hún hafi náð þessum áfanga. Úrtökumótin eru alls þrjú og mun Ólafía keppa á öðru stiginu seinni hluta októbermánaðar. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni tók einnig þátt í mótinu í Bandaríkjunum en komst ekki í gegnum niðurskurð keppenda að loknum þremur hringjum. Valdís lék á 81, 73 og 73.

Úrtökumótin geta verið mjög taugatrekkjandi fyrir kylfinga enda mikið í húfi. „Ég var alveg sultuslök í þessu móti. Fyrir fram hefði ég búist við því að verða smá stressuð en það kom ekki. Ég hef spilað vel undanfarið og það hefur sjálfsagt haft mikið að segja. Þessi vegferð er bara rétt að byrja en þessi spilamennska er gott veganesti fyrir framhaldið,“ sagði Ólafía, en hún spilaði hringina á 68, 71, 70 og 72 höggum.

Nánar er rætt við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert