Fyrsta sjónvarpsstjarnan

Arnold Palmer.
Arnold Palmer. AFP

Viðbrögðin við andláti bandaríska kylfingsins Arnolds Palmers hafa verið gríðarlega mikil í fjölmiðlum víða um heim og á samskiptamiðlum. Palmer naut fádæma vinsælda í Bandaríkjunum þegar hann var upp á sitt besta og varð með tímanum eins konar sendiherra fyrir íþróttina. Palmer var ekki bara einn sigursælasti kylfingur frá upphafi heldur er hans ekki síður minnst fyrir þau áhrif sem hann hafði á framgang íþróttarinnar.

Palmer fæddist 1929 og fór að láta verulega að sér kveða á golfvellinum seint á 6. áratugnum. Hans fyrsta tímabil á PGA-mótaröðinni var þó árið 1954 og tókst honum að vinna eitt mót á nýliðaárinu. Palmer sigraði á Masters árið 1958 og var þar um hans fyrsta sigur á risamóti að ræða. Í framhaldinu héldu honum nánast engin bönd og næstu árin bættust margir risatitlar í safnið en þeir urðu alls sjö.

Sprenging í iðkendafjölda

Þegar Palmer kom fram á sjónarsviðið á 6. áratugnum var mikill uppgangur í Bandaríkjunum. Millistéttin óx mjög og sjónvarpstæki voru algeng á heimilum. Palmer varð fyrsta sjónvarpsstjarna golfsins og í raun ein fyrsta sjónvarpsstjarna íþróttanna. Ekki var það einungis vegna velgengni Palmers heldur var hann litríkur keppnismaður. Sýndi tilfinningar í keppni og tók áhættu í leik sínum á golfvellinum. Auk þess þótti Palmer vera glæsimenni hið mesta og ef til vill klæðskerasaumaður fyrir sjónvarpið. Þá þótti Palmer alþýðlegur í allri framkomu.

Vinsældir Arnolds Palmers og breytt lífsmynstur í Bandaríkjunum jók iðkendafjölda í golfi um þetta leyti og má jafnvel tala um sprengingu í því sambandi. Er þar um að ræða einhverja mestu aukningu á iðkendafjölda í íþróttinni sem um getur. Er það ein af ástæðum þess að kylfingar og golfhreyfingin telja sig standa í þakkarskuld við Palmer.

Sjá greinina í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert