Daly drakk bjór í miðjum keppnishring

John Daly
John Daly AFP

Rokkstjarna golfsins, John Daly, upplýsir í væntanlegri heimildarmynd að hann hafi drukkið áfengi í miðjum golfhring á bandarísku PGA-mótaröðinni.

Heimildarmyndin Hit It Hard verður sýnd í nóvember á ESPN-sjónvarpsstöðinni og er hluti af hinni vinsælu heimildarþáttaseríu 30 for 30.

Daly segist í myndinni margoft hafa mætt timbraður í mót á keppnisferlinum en segist einu sinni hafa neytt áfengis meðan á keppnishring stóð á PGA. Segir hann það hafa gerst á LA Open fyrir mörgum árum.

Daly segist hafa verið ræstur út á 10. teig. Að lokinni 18. holunni hafi hann farið inn í búningsklefa og sturtað í sig fimm bjórum. Hann hafi þá verið tvö eða þrjú högg yfir parinu eftir að hafa spilað 10.-18. Hann segist hafa spilað holur 1-9 á samtals fjórum höggum undir pari eftir bjórþambið. Lætur Daly þess einnig getið að hann hafi verið sterkur á lokaspretti mótsins og leikið vel þá vikuna.

Tímaritið kunna Golf Digest greinir frá þessu.

John Daly er fyrir löngu orðinn þekktur fyrir áfengisneyslu sína og hefur farið í áfengismeðferð oftar en einu sinni. Hefur hann verið settur í bann á PGA-mótaröðinni vegna áfengisneyslu en þó var ekki vitað til þess fyrr en nú að hann hefði drukkið í keppni á mótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert