Gjafmildi Palmers kom Tiger í klandur

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Tiger Woods segir frá því í nýju viðtali að kvöldverður með goðsögninni Arnold Palmer hafi komið honum í klandur á háskólaárum hans þegar hann keppti fyrir Stanford-háskólann í NCAA. 

Í viðtalinu var Tiger spurður út í samskipti sín við Palmer í ljósi þess að Arnold Palmer féll nýlega frá. Tiger sagði sögu af því þegar hann snæddi kvöldverð með Palmer á háskólaárunum. Palmer borgaði reikninginn með glöðu geði en þegar Tiger fór að ræða málin við þjálfara sinn kom í ljós að hann var kominn í vandræði. Áhugamannareglurnar varðandi íþróttamenn á skólastyrk í bandarískum háskólum eru gífurlega strangar. Þar sem Tiger hafði þegið máltíð var hægt að tilkynna það til NCAA og þar með hefði hann misst af lokamóti NCCA, stærsta móti vetrarins hjá bandarísku háskólaliðunum. Tiger segir frá því að hann hafi því þurft að senda Palmer ávísun fyrir steikinni og NCCA þurft að fá afrit til baka með faxi sem staðfesti að Palmer hefði innleyst ávísunina. Þar með slapp Tiger við keppnisbann. 

Farið er úr einu í annað í viðtalinu og segist Tiger Woods nú horfast í augu við að hann þurfi að breyta leikstíl sínum á golfvellinum til þess að eiga möguleika á því að vinna fleiri golfmót. Tiger var áður með högglengstu mönnum í íþróttinni og nýttist högglengdin og krafturinn honum vel. Í raun gat hann nýtt högglengdina til að forðast ýmsar hindranir á golfvöllunum. Nú sé staðan önnur bæði vegna þess að Tiger sé að komast á fimmtudagsaldurinn en einnig hafi vellirnir breyst.

Spurður hvort hann teldi að Jack Nicklaus væri besti kylfingur heims frá upphafi þar sem hann hefði unnið flest risamót svaraði Tiger því í raun ekki. Sagðist einnig hafa verið býsna góður sjálfur og hefðu hann og Nicklaus mæst þegar þeir voru báðir á hátindinum hefði það verið skemmtileg barátta. Einnig sagði Tiger að erfitt væri að bera saman menn af ólíkum kynslóðum, meðal annars vegna tæknibreytinga sem hefðu haft áhrif á íþróttina, en í þeirri umræðu hafði einnig verið minnst á Bobby Jones, þann eina sem unnið hefur öll fjögur risamótin á sama árinu.

Ljósmynd af Arnold Palmer þegar hann var uppi á sitt …
Ljósmynd af Arnold Palmer þegar hann var uppi á sitt besta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert