Annar frábær hringur Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á vellinum í Daytona í gær.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á vellinum í Daytona í gær. Ljósmynd/Bret Lasky/LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal efstu kvenna á lokastigi úrtökumótanna fyrir sterkustu atvinnumótaröð kvenna í golfi, LPGA í Bandaríkjunum, en leikið er á Daytona Beach á Flórída.

Ólafía er á samtals níu höggum undir pari eftir að hafa leikið á 67 höggum í dag sem er fimm undir pari vallarins. Þennan völl lék hún á 74 höggum á fyrsti degi mótsins og þykir hann vera sá erfiðari af þeim tveimur sem eru notaðir í mótinu. Ekki hefur sést betra skor á vellinum í mótinu til þessa. 

Að loknum þremur hringjum af fimm er Ólafía í mjög góðri stöðu og er þá tekið frekar vægt til orða. Aðeins tveir kylfingar hafa leikið betur og eru á samtals 14 og 13 höggum undir pari. Tuttugu efstu kylfingarnir að loknum fimm hringjum fá keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni á nýju ári. 

Ólafía Þórunn lék frábært golf á öðrum hringnum í gær en hún lék hann á 66 höggum eða sex höggum undir pari og var í 10.-11. sæti. 70 efstu keppendur komast áfram eftir fjóra hringi og leika tvo hringi til viðbótar og 20 efstu af þeim fá keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. 

Fylgst var með gangi mála á mbl.is:

1. Ólafía hefur lokið við að spila fyrstu holuna á Hills-vellinum sem hún lék á parinu og hún er þar með enn fjórum höggum undir pari. Hún er í sæti 10-14.

2. Fyrsti fuglinn kominn í hús. Ólafía fékk fugl á par fimm holu og er þar með kominn fimm höggum undir pari. Vel gert og meira af þessu. Ólafía er nú í 7.-12. sæti.

3. Glæsilegt. Annar fuglinn í röð og nú á par þrjú holu á 3. brautinni. Ólafía er þar með komin sex höggum undir parinu og er tveimur undir pari í dag. Okkar kona er komin upp í 4.sæti.

4. Ólafía Þórunn fékk par á fjórðu brautinni og er sex höggum undir pari í heildina. Hún er í sæti 4-5.

5. Ólafía fékk aftur par á fimmtu braut. Hún er sem fyrr í 4.-5. sæti á samtals sex höggum undir pari.

6. Ólafía setti niður 7-8 metra pútt fyrir fugli. Hennar þriðji fugl í dag! Hún er nú ein í 4. sæti á samtals 7 höggum undir pari, 3 höggum undir pari í dag. Efst er Nasa Hataoka frá Japan á 11 höggum undir pari.

7. Ólafía púttaði fyrir fugli á sjöundu flötinni en fékk par. Hún er áfram í 4. sæti á samtals sjö höggum undir pari, fjórum höggum frá efsta sæti og þremur höggum frá 2. og 3. sæti.

8. Ólafía fékk fugl á áttundu holu! Hennar fjórði fugl í dag og enginn skolli. Hún er samtals á átta höggum undir pari, áfram í 4. sæti en nú tveimur höggum á eftir næstu tveimur kylfingum.

9. Rétt missti af fugli á 9. holunni. Fékk létt par og er samtals á átta undir pari í mótinu og fjögur högg undir pari á hringnum í dag. Hringurinn hálfnaður og mótið hálfnað en leiknir verða fimm hringir hjá þeim sem komast í gegnum niðurskurðinn eftir fjóra daga. Staða Ólafíu virkilega góð. 

10. Ólafía bætti við pari á 10. holu. Átti 6-7 metra pútt fyrir fugli samkvæmt GSÍ. Slátturinn er greinilega afar góður eins og verið hefur alla þrjá dagana. 

11. Fugl á 11. holu! Mögnuð spilamennska Ólafíu heldur áfram. Hún er nú samtals á níu höggum undir pari. Aðalatriðið er að hún er mörgum höggum frá því að detta út af topp tuttugu listanum en tuttugu efstu að loknum fimm hringjum fá keppnisrétt á LPGA á næsta ári. 

12. Ja hérna. Annar fugl á 12. holu. Ólafía er búin að fá sex fugla og sex pör í dag. Þvílík frammistaða. Hún er aðeins höggi á eftir þeim kylfingi sem er með besta skorið í mótinu en Ólafía er nú samtals á tíu undir pari. 

13. Ólafía fékk par á 13. holu. Miðað við lýsinguna á Twitter virðist Ólafía vera að hitta brautir og flatir ítrekað í tilskildum höggafjölda. Hún virðist mjög örugg. 

14. Ólafía fékk par á 14. holu sem er par 5 hola. Hún hitti ekki í fuglapútti sín og skildi þá eftir pressupútt fyrir parinu en stóðst pressuna. 

15. Fyrsti skollinn í dag kom á 15. holu. Löng par 3 hola. Mest hætta á að fá skolla á slíkum holum samkvæmt fræðunum. Aðeins annar skollinn sem Ólafía fær síðan á fyrri níu á fyrsta degi. 

16. Létt par á 16. holu sem er par 5. Var reyndar nálægt fugli samkvæmt GSÍ. Ólafía hefur fengið sex fugla á hringnum en hefur samt fengið pör á tveimur par 5 holum sem eru yfirleitt líklegri til að gefa fugla. 

17. Ólafía fékk par á 17. holu. Átti ágætt færi fyrir fugli. Allt útlit fyrir að hún skili inn frábæru skori annan daginn í röð. Er á fimm undir pari í dag og samtals níu undir. 

18. Par á síðustu holunni og frábæru skori skilað inn. 

Hér má sjá stöðuna:

Twitter síða GSÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert