„Ég er ótrúlega stolt“

„Ég er enn þá að átta mig á þessu en ég er ótrúlega stolt. Þetta var mjög gaman,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, eftir að hafa tryggt sér sæti á sjálfri LPGA-mótaröðinni með frábærri frammistöðu sinni í Flórída yfir helgina.

Ólafía hélt góðri einbeitingu alla keppnisdagana þrátt fyrir að mikið væri í húfi og endaði í 2. sæti á lokaúrtökumótinu, aðeins einu höggi frá sigri:

„Ég var alveg róleg, aldrei stressuð, en ég var orðin svolítið þreytt. Þetta er langt mót og ég var bara að reyna að halda þolinmæðinni. Það er svolítil áskorun. Maður veit að það eru níu holur eftir og hugsar „vá, ég er næstum því komin með þetta í pokann,“ en maður verður þá að stoppa og taka bara eitt högg í einu,“ sagði Ólafía. Keppnisdagarnir voru alls fimm og Ólafía reyndi að dreifa huganum utan vallar:

„Ég hugsaði sem minnst um golf þegar ég var komin af vellinum. Við fórum að versla einn daginn, og svo var ég líka að horfa á þætti eins og Friends og Lie to Me og dreifa huganum,“ sagði Ólafía. Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert