Sjaldgæft kviðslit herjar á Ólaf

Ólafur Björn Loftsson
Ólafur Björn Loftsson mbl.is/Styrmir Kári

Kylfingurinn Ólafur Björn Loftsson hefur ekki fengið sig góðan eftir aðgerð á mjöðm og upplýsir á samfélagsmiðlum að hann glími nú við tvenns konar kviðslit. 

Ólafur segist hafa fengið sjaldgæfa tegund af kviðssliti: 

Ég hef unnið hörðum höndum og lagt mikinn tíma í að leita að réttri greiningu og í síðasta mánuði kom svo í ljós í að ég reyndist vera með tvenns konar kviðslit. Ég var meðal annars með mjög sjaldgæft kviðslit (femoral hernia) sem getur einmitt valdið sársauka í mjöðm. Ég fór strax í aðgerð og heppnaðist hún vel,“ segir Ólafur meðal annars en hann stefnir að keppni á Nordic League-mótaröðinni á nýju ári þar sem hann er með keppnisrétt. Ólafur segir árangur Ólafíu Þórunnar vera sér hvatningu til að gera betur á golfvellinum en Ólafur er eini Íslendingurinn sem leikið hefur á móti á PGA-mótaröðinni en Ólafía mun von bráðar afreka það einnig. 

Færsla Ólafs í heild sinni:

„Ég hef lítið skrifað hér undanfarna mánuði og ástæðan er einfaldlega að síðustu misseri hafa reynst mér erfið, bæði innan vallar sem utan. Fyrir einu ári síðan fór ég í aðgerð á hægri mjöðm en því miður bar hún ekki tilskyldan árangur. Ég náði ekki að beita mér sem skyldi á golfvellinum og það hefur vissulega reynt á andlega þáttinn. Ég hef reynt eftir fremsta megni að vera jákvæður, þolinmóður og bjartsýnn. Þrátt fyrir að það hafi vissulega tekist að mörgu leyti þá viðurkenni ég alveg að þetta hefur haft sín áhrif.

Ég hef unnið hörðum höndum og lagt mikinn tíma í að leita að réttri greiningu og í síðasta mánuði kom svo í ljós í að ég reyndist vera með tvenns konar kviðslit. Ég var meðal annars með mjög sjaldgæft kviðslit (femoral hernia) sem getur einmitt valdið sársauka í mjöðm. Ég fór strax í aðgerð og heppnaðist hún vel.

Mig langar til að nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa stutt við bakið á mér og fyrir alla hjálpina í gegnum þessa tíma, þetta er búið að reyna mikið á en nú ætla ég að draga línu í sandinn og hefja nýjan kafla.

Nordic League veitti mér undanþágu til að leika á mótaröðinni á næsta ári út af þessum meiðslum. Það er gífurlega mikilvægt fyrir mig að halda þessum fulla þátttökurétti þannig að ég þurfi ekki að byrja á byrjunarreit. Það er jafnframt mjög spennandi að á næsta ári verðum við nokkrir Íslendingarnir á mótaröðinni í fyrsta skipti og ég get ekki beðið eftir að hefja keppni á ný. Ég fer til Flórída um áramótin og ætla svo að hefja nýtt tímabil á Nordic League í febrúar.

Það er spennandi ár fram undan, ég er staðráðinn í að ná mínum markmiðum og hvatningin hefur síðan bara aukist eftir að hafa fylgst með Ólafíu blómstra og spila sig inn á sterkustu mótaröð heims. Enn og aftur, til hamingju Ólafía!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert