Tiger Woods fékk 24 fugla

Tiger Woods í mótinu á dögunum.
Tiger Woods í mótinu á dögunum. AFP

Endurkoma Tigers Woods á golfvöllinn var hreint ekki alslæm en hann keppti á móti í fyrsta skipti í fimmtán mánuði um helgina. 

Tiger fékk til að mynda 24 fugla á 72 holum en enginn fékk fleiri fugla í mótinu. Um var að ræða boðsmót sem Tiger hefur sjálfur staðið fyrir á ári hverju. 

Kappinn var hins vegar ryðgaður og gerði ýmis mistök sem gerði það að verkum að fuglarnir nýttust ekki nægilega vel. Hringina fjóra spilaði Tiger á 73-65-70-76. 

Kylfusveinn hans Joe LaCava hefur tjáð sig um frammistöðuna við fjölmiðla og var jákvæður. Hann sagði aðalmálið hafa verið að sjá hvort líkami Tigers þyldi álagið sem fylgir því að spila marga daga í röð en Tiger er illa farinn eftir bæði hné og bakmeiðsli á umliðnum árum. LaCava segir það vera mjög jákvætt að Tiger hafi komist heill í gegnum mótið en hann hafi ekki verið með neinar sérstakar væntingar varðandi spilamennskuna að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert