Ólafía í viðtali á Golf Channel

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Ljósmynd/KPMG

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, er byrjuð að vekja athygli vestan hafs þótt LPGA-mótaröðin sé ekki hafin. Hún var í stuttu viðtali í beinni útsendingu á bandarísku sjónvarpsstöðinni Golf Channel á þriðja tímanum í dag að íslenskum tíma. 

Golf Channel er kunn sjónvarpsstöð í kringum íþróttina og er haldið út af sjónvarpsrisanum NBC. Um var að ræða þáttinn Morning drive. 

Ólafía var þar í stuttu spjalli ásamt tveimur öðrum kylfingum af LPGA-mótaröðinni en nýtt keppnistímabil er handan við hornið á mótaröðinni. Ásamt Ólafíu var rætt við Stacy Lewis sem er nú í 14. sæti heimslistans og Mariah Stackhouse sem spáð er bjartri framtíð á mótaröðinni.

Þessar þrjár hafa verið valdar til að vera merkisberar KPMG á mótaröðinni bandarísku. Ólafía sagðist í viðtalinu vera þakklát fyrir stuðninginn en að undanförnu hefði hún einmitt verið í leit að styrktaraðilum ásamt því að finna sér umboðsmann. Slíkt væri mikilvægt þegar komið væri á LPGA-mótaröðina sem væri stór umfangs. 

Þessar þrjár munu leika með merki KPMG framan á sér allt keppnistímabilið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert