„Það voru bara tvö slæm högg“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Ljósmynd/KPMG

„Aðstæður í dag voru frábærar. Það er samt alltaf svolítið skrítið að hita upp í myrkri og það birtir ekkert fyrr en 15 mínútum fyrir rástímann. Dagurinn var mjög góður, mér leið vel í morgun og ég var að spila mjög vel,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur í samtali við netmiðilinn kylfingur.is en Ólafía Þórunn lék fyrsta hringinn á Opna ástr­alska mót­inu í golfi í Adelai­de á 72 höggum og er í 41.-61. sæti.

„Mér fannst ég spila aðeins betur en skorið sagði, til að mynda þá hitti ég tvö grín á par 5 holum í tveimur höggum og ég rétt missti örninn á annarri. Það voru bara tvö slæm högg í dag, tvær holur í röð þar sem ég var að slá með 5 járni, og þessi högg kostuðu mig. En heilt yfir er ég mjög sátt með daginn,“ segir Ólafía við kylfingur.is.

Ólafía fer seinna af stað á öðrum hring en hún hef­ur þar keppni næstu nótt um klukk­an 1.30. Kepp­end­ur eru 144 og um það bil 70 þeirra halda áfram eft­ir niður­skurðinn að lokn­um öðrum hring. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert