Besti hringur Ólafíu staðreynd

Ólafía Þórunn spilar þriðja hringinn í kvöld.
Ólafía Þórunn spilar þriðja hringinn í kvöld. Ljósmynd/GSÍ

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði þriðja hringinn á Opna ástralska mótinu í golfi á 71 höggi eða tveim höggum undir pari vallarins en hún var að ljúka keppni í Adelaide. Það er hennar besti hringur fram að þessu á mótinu.

Hún fékk einn fugl og átta pör á fyrri níu holunum þar sem hún spilaði af fádæma öryggi. Hún hélt svo áfram að fá pör, þangað til á 13. holu þegar hún þurfti að gera sér að góðu að fá skolla. 

Ólafía lét það svo sannarlega ekki á sig fá, því hún fékk tvo fugla á síðustu fimm holunum og komst hún tveimur höggum undir parið og í 35.-39. sæti sem er virkilega góður árangur. Margir eiga eftir að ljúka keppni í nótt svo endanlegt sæti hennar eftir þriðja hring verður ekki ljóst strax.

Spili Ólafía svipað golf á morgun, gæti hún komist á meðal 20 efstu kylfinga mótsins sem væri stórkostlegur árangur. 

Alls hófu 144 kylfingar keppni á mótinu í Adelaide en 69 féllu út í niðurskurðinum eftir annan hring.

Fylgst var með gangi mála hjá Ólafíu, holu fyrir holu:

01:30 - Ólafía fær par á síðustu holunni og líkur þar með hringnum á samtals 71 höggi eða tveim höggum undir pari. Það er hennar besti hringur fram að þessu. 

01:09 - Glæsilegt! Ólafía er komin með tvo fugla á síðustu þremur holunum og er hún skyndilega komin tvo undir pari vallarins. Hún stökk upp í 35.-44. sæti. Ein hola eftir og það væri gjörsamlega magnað ef hún myndi enda hringinn á tveimur fuglum. 

00:45 - Ólafía fylgir fuglinum eftir með pari á 16. holunni. Hún fékk fugl á síðustu tveimur holunum í gær og þessi hringur verður aldeilis glæsilegur ef hún nær því aftur í kvöld. 

00:42 - Já! Þarna kemur fuglinn sem ég var að kalla eftir. Hún fékk skolla á þessari holu í gær en hún bætir upp fyrir það núna með að fá fugl. Hún er því aftur komin einu höggi undir pari og upp í 44.-52. sæti. 

00:38 - Ólafía svarar skollanum með að ná í par á 15. holu. Vel gert og nú er það bara að klára hringinn vel. 

00:35 - Jæja, Ólafía þarf að sætta sig við skolla á 14. holunni og er hún því komin á parið aftur. Hún er í 52.-61. sæti sem stendur sem er mjög góður árangur samt sem áður. Það var hrikalega vel gert að komast í gegnum niðurskurðinn til að byrja með. 

00:10 - 12. parið fylgir á 13. holunni. Ég kalla eftir fugli til að gera góðan hring alveg glæsilegan. Áfram gakk. 

23:55 - Og hér kemur 11. parið hjá Ólafíu í kvöld. Hún heldur sér í topp 50, vel gert. 

23:40 - Enn eitt parið lítur dagsins ljós á 11. holu. Fádæma öryggi í þessari spilamennsku hjá Ólafíu í dag. Engir leiðinda skollar fram að þessu. 

23:36 - Ólafía byrjar seinni níu holurnar eins og hún kláraði þær fyrri, með góðu pari. Hún er í 51.-58. sæti eins og er. Það væri frábær árangur að ná topp 50 á þessu móti. Vonum að hún fái sinn annan fugl á hringnum sem fyrst. 

23:27 - Það er lítið hægt að kvarta yfir fyrri níu holum Ólafíu. Hún fær sitt áttunda par og er hún því samtals á einu höggi undir pari, bæði í dag og á mótinu í heild sinni. 

23:07 - Ólafía nær í par á 8. holunni og heldur góður hringur hennar áfram. Hún á eina holu eftir af fyrri níu holunum og er hún nú í 50.-64. sæti. Það væri glæsilegt ef hún myndi ná að klára fyrri níu holurnar með að næla sér í fugl.  

22:50 - Gríðarlega öruggt golf Ólafíu heldur áfram. Hún er á einu höggi undir pari vallarins þegar sjö holur eru búnar. Hún fékk par á 6. og 7. holu og er hún sem stendur í 51.-64. sæti. 

22:38 - Aftur fær Ólafía par, nú á 5. holu og heldur góð byrjun hennar á þriðja degi áfram. 

22:29 - Einn besti kvenkylfingur heims, Lydia Ko, er að spila á sama skori og Ólafía. 

22:24 - Ólafía fylgir fyrsta fugli dagsins með því að fá par og er hún því enn einu höggi undir pari. Einn fugl og þrjú pör á fyrstu fjórum holunum er mjög fínn árangur. Sarah Jane Smith er í toppsætinu á níu höggum undir pari. 

22:15 - Glæsilegt! Ólafía fær sinn fyrsta fugl á hringnum á þriðju holu. Hún er komin einu höggi undir pari vallarins og skýst fyrir vikið upp í 48.-68. sæti. 

21:49 - Aftur par hjá Ólafíu. Eins og í gær byrjar hún hringinn með tveimur pörum og öruggu spili. Það styttist í fyrsta fuglinn, ég finn það á mér. 

21:37 - Ólafía byrjar þriðja hringinn á að næla sér í gott par og er hún enn á pari vallarins. 

v

v

v

v

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert