Ólafía þarf kraftaverk

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á svo að segja engan möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn á KIA Classic-mótinu sem er hennar fjórða á LPGA-mótaröðinni í golfi. Hún lék annan hringinn í dag á tveimur höggum yfir pari, og er tveimur höggum frá áætluðum niðurskurði þó enn eigi fjölmargir kylfingar eftir að ljúka leik.

Ólafía byrjaði á seinni níu holunum í dag, og eins og í gær byrjaði hún á skolla. Hún fékk alls þrjá slíka á fyrri hluta hringsins og einn fugl, og þurfti að sækja í sig veðrið á síðari hluta hringsins. Þar komu hins vegar þrír skollar í viðbót og urðu þeir því alls sex, en hún kláraði hins vegar á tveimur fuglum og urðu þeir alls fjórir.

Ólafía spilaði því á tveimur höggum yfir pari í dag og er samtals á þremur höggum yfir pari. Sem fyrr segir eiga fjölmargir kylfingar eftir að ljúka leik, en áætlað er að skorið verði niður við eitt högg yfir pari. Það þarf því allt að ganga á afturfótunum hjá þeim kylfingum sem eftir eru ef það á að breytast og því nánast hægt að útiloka að Ólafía komist í gegn.

Fylgst var með hringnum hjá Ólafíu í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

9. Já sko! Ólafía klárar á öðrum fugli í röð á níundu brautinni og er því samtals á þremur höggum yfir pari þegar hún kemur í hús. Hún þarf að bíða átekta eftir að aðrir kylfingar klári, en áætlaður niðurskurður er enn við eitt högg yfir pari. Það þarf eitthvað mikið að gerast svo hún sleppi í gegn.

8. Ólafía ætlar greinilega að gera nákvæmlega það, og nælir í fugl á næstsíðustu holu sinni sem er par 5 braut. Hún er samtals á fjórum höggum yfir pari fyrir síðustu holuna, en því miður fyrir hana hefur áætlaður niðurskurður ekki breyst og stendur enn við +1.

7. Nú er þetta endanlega farið hjá Ólafíu, hún var að fá skolla á sjöundu brautinni sem er par 4. Tvær holur eftir og nú þarf bara að klára þetta með sæmd.

6. Grátlegur skolli hérna á sjöttu holunni sem er par 3, og nú er róðurinn orðinn ansi þungur. Ólafía þarf fugl á öllum þremur holunum sem eftir eru, í það minnsta, ætli hún að eiga möguleikann áfram.

5. Ólafía parar þessa par 5 braut og er enn á þremur höggum yfir pari. Hún þarf að sækja á síðustu fjórum holunum, en sem stendur er hún jöfn fleiri kylfingum í 94. sæti.

4. Annað parið í röð á þessari par 4 braut. Nú þarf bara að sækja enn frekar, en næst er komið að langri par 5 braut.

3. Ólafía fær parið á þessari par 3 braut. Sex holur eftir og hún verður að næla í tvo fugla hið minnsta.

2. Svona á að hefja áhlaupið við niðurskurðarlínuna, fugl á annarri braut sem er par 4 og nú er hún samtals á þremur höggum yfir. Koma svo!

1. Ekki byrjar seinni helmingurinn nógu vel og Ólafía fær skolla á fyrstu braut rétt eins og í gær. Niðurskurðurinn er enn miðaður við +1, svo Ólafía þarf að bæta sig um þrjú högg í það minnsta.

18. Ólafía klárar seinni níu holur vallarins, fyrri níu hjá sér á hringnum, á parinu á þessari par 4 braut. Hér fékk hún skolla í gær. Hún er því hálfnuð, á +2 í dag og +3 samtals og þarf að taka fleiri áhættur í leik sínum ætli hún sér áfram.

17. Æ, eins og í gær er það skolli á þessari par 5 braut og Ólafía er því búin að fá þrjá slíka í dag. Hún er nú samtals á þremur höggum yfir pari og þarf að bæta sig um að minnsta kosti tvö högg til þess að sleppa í gegnum niðurskurðinn.

16. Ólafía réttir úr kútnum með því að para sextándu brautina, sem er par 4. Hún fékk skolla á næstu tveimur holunum í gær, en vonandi að hún geri betur í dag.

15. Fuglinn var skammgóður vermir, því á næstu braut sem er par 4 kom skolli. Fimm högg þar staðreynd og Ólafía aftur dottin niður fyrir niðurskurðarlínuna á tveimur yfir pari.

14. Það var laglegt! Eins og í gær fær Ólafía fugl á 14. brautinni, sem er par 3. Hún er nú á einu höggi yfir pari samtals og er komin réttu megin við niðurskurðarlínuna.

13. Þetta er að spilast eins og í gær, Ólafía er að ná í þriðja parið í röð á þessari par 4 braut. Á næstu holu fékk hún fugl í gær og það verður spennandi að sjá hvort hún nái að rétta úr kútnum þar á ný.

12. Annað parið í röð kemur á tólftu brautinni, sem er par 4. Örugg spilamennska eins og lengst af í gær eftir að hafa byrjað á skolla.

11. Ólafía svarar skollanum með pari á þessari par 3 braut. Hún þarf líklega að fara að taka áhættur þegar líður á hringinn, en hún er núna á tveimur höggum yfir pari en áætlaður niðurskurður er við +1.

10. Ólafía byrjar á skolla eins og hún gerði á fyrstu holunni í gær. 10. brautin er par 5 og Ólafía leikur hana á sex höggum. Í gær svaraði hún skollanum með því að ná í fimm pör í röð, og vonandi bregst hún jafn vel við núna.

15.50 Þá er Ólafía komin á teig og að fara af stað. Hún byrjar að þessu sinni á 10. braut og spilar því seinni níu holurnar fyrst.

Fyrir hringinn: Nú áður en Ólafía fer af stað er áætlaður niðurskurður við eitt högg yfir pari, eins og Ólafía stendur núna. Það er hins vegar fljótt að breytast en þó ljóst að hún má ekki misstíga sig ætli hún sér áfram.

Fyrir hringinn: Efstu kylfingar eru á sex höggum undir pari eftir fyrsta hringinn. Ólafía kemur inn á öðrum hring jöfn fleiri kylfingum í 65.-81. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert