Ólafía náði sér vel á strik

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér vel á strik í Texas í dag og lék annan hringinn á Vounteers of America-mótinu á LPGA-mótaröðinni í golfi á 67 höggum. Er það fjögur högg undir pari vallarins og er hún á höggi undir pari samtals í mótinu. 

Ólafía fór snemma út í dag og því eiga margir kylfingar eftir að ljúka leik. Hún er sem stendur í 31. sæti en lítið er að marka þá stöðu enn sem komið er. Yfignæfandi leíkur eru þó á því að hún komist í gegnum niðurskurð keppenda en það leit ekki sérstaklega vel út í gær. Vel gert hjá Ólafíu en einungis þeir sem komast í gegnum niðurskurðinn fá greitt verðlaunafé. 

Ólafía hóf leik á 10. teig í dag og var þá á þremur yfir pari í mótinu eftir að hafa leikið á 74 höggum á fyrsta degi mótsins í gær. Hún lét hendur strax standa fram úr ermum og fékk fugl á 10. holunni. Lokahnykkur á fyrri níu holunum í dag var frábær en Ólafía fékk fugla á 15., 16. og 18. holu. Hún bætti við fugli á 1. holu vallarins sem var þá hennar tíunda hola á hringnum. Fékk því fjóra fugla á fimm holum. Eftir það fékk Ólafía sjö pör en skolla á síðustu holunni.

Þegar upp var staðið fékk hún fimm fugla, tólf pör og einn skolla á hringnum. Andinn í ráshópi Ólafíu var vafalaust góður í dag en hin bandaríska Dori Carter sem lék með Ólafíu spilaði á 63 höggum. Hún spilaði sex holu kafla á sjö höggum undir pari sem er mögnuð frammistaða. Carter er samtals á þremur undir pari en hún var á 76 höggum í gær. 

Sem stendur eru efstu kylfingar í mótinu á sex undir pari samtals eða fimm höggum betra en Ólafía. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert