Ólafía er í erfiðri stöðu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur var að ljúka fyrsta hringnum á Texas Shootout-mótinu í LPGA-mótaröðinni í Dallas í Texas.

Hún er í erfiðri stöðu á þremur höggum yfir pari vallarins og er í 99. til 116. sæti af 144 keppendum en fyrstu 70 komast í gegnum niðurskurðinn á morgun.

Sá niðurskurður mun væntanlega miðast við annaðhvort eitt eða tvö högg yfir pari eins og staðan er núna.

Ólafía byrjaði illa og fékk þrjá skolla á fyrstu átta holunum en lék aðrar á pari lengi vel. Hún náði síðan fugli á 15. holu og þá var útlitið orðið ágætt, en í kjölfarið fékk hún tvo skolla í röð á 16. og 17. holu. 

Allar þær bestu eru með á mótinu í Dallas og Mi Jung Hur frá Suður-Kóreu með forystu eftir fyrsta hring, er á 6 höggum undir pari eða 65 höggum. Sjö kylfingar eru á 4 höggum undir pari, 67 höggum, og þeirra á meðal hin bandaríska Michelle Wie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert