Líðanin er góð utan golfvallar og innan

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Ljósmynd/LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari úr Golfklúbbi Reykjavíkur, byrjaði geysilega vel á fyrsta degi Volvik Championship á LPGA-mótaröðinni bandarísku en mótið fer fram í Detroit í Michiganríki.

Ólafía lét ekki skolla á 3. holu trufla sig og fékk ekki fleiri skolla á hringnum. Fuglarnir urðu hins vegar fjórir og Ólafía gat því skrifað ánægð undir skorkort með 69 höggum enda virkilegt gott að nota færri en 70 högg á fyrsta degi í móti.

„Mér leið mjög vel úti á vellinum. Ég er með nýjan kylfubera og það gekk mjög vel að vinna með honum,“ sagði Ólafía skömmu eftir að hringnum lauk. Hún var í 21. sæti þegar blaðið fór prentun en þá var fyrsta keppnisdegi nánast lokið. Heyra mátti á Ólafíu að létt er yfir henni þessa dagana og hún segir skýringuna einfalda.

„Fjölskylda mín var hjá mér í síðustu viku og fylgdist með mér í mótinu. Mér líður því bara mjög vel.“

Varðandi spilamennskuna sjálfa segist Ólafía hafa lagt meiri áherslu á að bæta lengri höggin fyrir þetta mót heldur en stutta spilið. Þjálfari hennar, Derrick Moore, kom fyrir nokkrum vikum og skerpti einnig á sínum áherslum.

„Ég held að það hafi hjálpað til að ég hitti Derrick fyrir nokkrum vikum og við unnum í ýmsum atriðum. Fyrir þetta tiltekna mót þá vann ég aðallega í slættinum vegna þess að mér fannst ég ekki slá nógu vel í síðustu viku. Auk þess reyndi ég að laga púttin og vippin og það virðist hafa gengið mjög vel,“ sagði Ólafía sem ekki virðist setja á sig mikla pressu þrátt fyrir fína byrjun enda eru golfmót sem þessi langhlaup sem taka fjóra daga.

Sjá allt viðtalið við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert