Ólafía í gegnum niðurskurðinn

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari úr GR, lék á 71 höggi eða á höggi undir pari á  Volvik Champ­i­ons­hip á LPGA-mótaröðinni banda­rísku en mótið fer fram í Detroit í Michiganríki­. Ólafía er samtals á fjórum höggum undir pari í mótinu og fer örugglega í gegnum niðurskurð keppenda.  

Er þetta í þriðja skiptið sem Ólafía kemst í gegnum niðurskurðinn í þessari sterkustu mótaröð heims en einungis þeir kylfingar sem komast í gegnum niðurskurðinn í hverju móti komast í verðlaunaféð sem í boði er. 

Á ýmsu gekk hjá Ólafíu á hringnum í dag. Ólafía hóf leik á 10. teig og á  fyrri níu holunum fékk hún þrjá fugla og einn skolla. Paraði rest. Á seinni níu holunum kom slæmur kafli þar sem hún fékk þrjá skolla í röð. Fuglarnir urðu ekki fleiri en afskaplega ljúfur örn skilaði sér á 9. og síðustu holunni sem kom henni undir parið í dag. Ekki algengt að kylfingar fái örn á par 4 holu og spurning hvort okkar kona hafi sett boltann í af nokkru færi vegna þess að í upplýsingum um völlinn segir að 9. holan sé löng par 4. 

Ólafía er í 31. sæti en hún var í 23. sæti eftir gærdaginn. Hún er á sama skori og til dæmis Lexí Thompson sem sigraði á LPGA-mótinu í síðustu viku á samtals 20 höggum undir pari. Efstu kylfingarnir eru á 10 höggum undir pari eða sex höggum á undan Ólafíu. 

Ólafía í Detroit opna loka
kl. 21:18 Textalýsing 9 - ÖRN Ha??? Samkvæmt skorinu á heimasíðu LPGA þá fékk okkar kona örn á 9. holunni sem þó er par 4 hola. Slíkt er afar sjaldgæft en við skulum vona að þetta bráðabirgðaskor sé rétt. Það kemur í ljós þegar Ólafía hefur kvittað undir skorkortið og skilað því inn. Hún hlýtur að hafa sett niður högg af talsverðu færi. Stórkostlegur endir á hringnum. Örn kemur henni undir parið á hringnum í dag og fjögur högg undir par samtals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert