Ólafía á móti með Condoleezzu Rice

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í spjalli á Golf Channel.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í spjalli á Golf Channel. Ljósmynd/Skjáskot

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er mætt á Olympia Fields-völlinn, rétt fyrir utan Chicago, þar sem hún mun spila á PGA-meistaramótinu og verða þar með fyrst Íslendinga til að spila á risamóti í golfi.

Dagskráin er nokkuð þétt hjá Ólafíu en í gær spilaði hún níu holur og fór svo í myndatöku ásamt fleirum af þeim kylfingum sem fyrirtækið KPMG stendur á bak við. Phil Mickelson var þar á meðal og stillti sér upp á meðfylgjandi mynd með Ólafíu, Stacy Lewis, Mariuh Stackhouse og Klöru Spilkovu.

Í dag mun Ólafía spila 18 holu upphitunarmót, Pro Am, þar sem frægir einstaklingar og fólk sem er áberandi í atvinnulífinu fær tækifæri til að spila með keppendunum á risamótinu. Þar á meðal er til að mynda stjórnmálakonan Condoleezza Rice. Ólafía verður í ráshópi með Candy Duncan, Mark Thierer og Donnu Orender. Orender er sennilega þekktust en hún er fyrrverandi körfuboltakona og var um tíma forseti WNBA.

Á morgun leikur Ólafía níu holu æfingahring en hún hefur svo keppni á sínu fyrsta risamóti á fimmtudag, kl. 14.20 að íslenskum tíma. Á föstudag á hún rástíma kl. 19.20 að íslenskum tíma og hefur þá keppni á 10. teig.

Eins og fram hefur komið verður Ólafía í ráshópi með Annie Park og Wendy Doolan frá Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert