„Ég er komin til þess að vinna“

Valdís Þóra var kát í gær eftir blaðamannafund sem fram …
Valdís Þóra var kát í gær eftir blaðamannafund sem fram fór í klúbbhúsi Keilis. Ljósmynd/Kristín María

„Ég er bara spennt að byrja að keppa,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir að loknum blaðamannafundi í gær. Valdís Þóra hefur leik á morgun kl. 13:50 ásamt Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur og Ragnhildi Kristinsdóttur á Íslandsmótinu í höggleik, sem fram fer á Hvaleyrarvelli.

Golfklúbburinn Keilir fagnar 50 ára afmæli í ár og bætti við þremur nýjum holum í tilefni þess. Nýju 13., 14. og 15. brautirnar verða formlega vígðar á morgun þegar mótið hefst.

„Völlurinn er mjög flottur hjá Keilismönnum. Ég spilaði í morgun og nýju holurnar eru flottar svo það verður mjög skemmtilegt að spila þær í mótinu. Þær eru mjög góð tilbreyting frá þeim holum sem þeir tóku út. Þetta verður bara gaman.“

Keiliskonan Guðrún Brá Björgvinsdóttir varð Íslandsmeistari í holukeppni í síðasta mánuði. Margir telja að hún muni blanda sér í toppbaráttuna um helgina, en þar að auki hefur meðalforgjöfin aldrei verið lægri en nú og því margar vísar til að leika vel.

„Það er erfitt að segja fyrir fram en allar eru komnar til að berjast, það er bara þannig. Sú sem berst best og lengst sigrar, en þetta kemur bara í ljós. Þetta verður bara gaman, auðvitað er stefnan sett á sigur. Að sjálfsögðu styðja heimamenn sína konu og auðvitað ætlar hún að vinna á heimavelli en ég er líka komin til þess að vinna svo þetta verður skemmtileg barátta.“

Valdís Þóra leikur í LET-mótaröðinni, en hún lék á Opna bandaríska risamótinu um síðustu helgi. Hún lék fyrstu tvo dagana en komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Aðstæður í Hvaleyrinni eru ólíkar því sem þekkist í Evrópumótaröðinni og geta reynst kylfingum erfiðar, en völlurinn stendur út við sjó og því er oft hvasst.

„Ég kann alveg að spila í góðu og slæmu veðri. Úti á Opna bandaríska meistaramótinu hellirigndi og það var rok svo þótt það væru 30 gráður var tæknilega séð skítaveður fyrstu tvo dagana. Ef veðurspáin stenst þá lítur þetta mjög vel út, en það væri eiginlega ótrúlegt ef spáin fyrir alla fjóra dagana stenst.“

Er Valdís reynslunni ríkari að hafa leikið á risamóti?

„Já algjörlega. Auðvitað er alltaf smá hnútur í maganum á fyrsta degi, það er sama hvort það sé Íslandsmót eða þriðjudagsmót. Það er alltaf spenna að fara af stað og það verður að vera þannig. Auðvitað hjálpar Opna bandaríska en ég held að það hjálpi meira þegar ég leik á mínu næsta risamóti. Þá veit ég betur hvernig þetta er, það var alveg stress á fyrstu holunum á fimmtudeginum.“

Valdís Þóra á tíunda teig á Hvaleyrarvelli í gær. Hún …
Valdís Þóra á tíunda teig á Hvaleyrarvelli í gær. Hún tók þátt í keppni um lengsta teighögg. Ljósmynd/Kristín María
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert