„Af botninum upp í topp“

Axel Bóasson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi.
Axel Bóasson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi. Ófeigur Lýðsson

„Ég fór nánast af botninum upp í topp, það er svolítið skrítin tilfinning,“ sagði Axel Bóasson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi, þegar blaðamaður náði tali af honum rétt eftir að umspilinu lauk. Axel lék þriggja holu umspil gegn Haraldi Franklín Magnús þar sem Axel hafði betur.

    Gangur umspilsins:

      Axel         Haraldur

10: PAR          SKOLLI

11: FUGL        PAR

18: PAR          SKOLLI

Axel var með þriggja högga forystu fyrir 18. holuna, en hann fór holuna á skramba. Haraldur Franklín setti langt pútt í fyrir fugli og knúði fram umspil um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var frekar öruggt framan af svo kom smá stress á 17. flöt og svo kom smá fát á mig þegar ég slæ í steinana á 18. En þá var ég orðinn óviss um hvað ég mátti gera. Svo næ ég pari á fyrstu holu umspilsins og náði að snúa hugsunarhættinum við.“

Axel er í Golfklúbbnum Keili og lék því á heimavelli. Fann hann fyrir mikilli pressu að hann átti að vinna?

„Heldur betur. Allir eru búnir að segja mér að ég eigi að vinna þetta svo það er frábært að hafa náð því. Þetta var mjög sætur sigur.

Umgjörðin í kringum mótið var hreint út sagt frábær, en rúmlega 100 sjálfboðaliðar komu að mótinu.

„Þetta er besta Íslandsmót sem ég hef leikið á og það á heimavellinum, þetta er æðislegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert