Kristján stóð einn eftir

Kristján Þór Einarsson
Kristján Þór Einarsson mbl.is/Styrmir Kári

Liðlega fjögur hundruð manns fylgdust með árlegu góðgerðarmóti Nesklúbbsins í golfi, Einvíginu á Nesinu, á Nesvellinum á Seltjarnarnesi í gær.

Tvær skærustu stjörnurnar í íslensku golfi um þessar mundir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir, voru báðar mættar til leiks þrátt fyrir að gera út erlendis þar sem þær eru í atvinnumennsku.

Þá voru tveir af sigursælustu kylfingum sögunnar hérlendis á meðal keppenda, Björgvin Þorsteinsson og Úlfar Jónsson. Einvígið á Nesinu var haldið í fyrsta skipti árið 1997 eða fyrir tveimur áratugum og þá sigraði Björgvin. Mótið hefur fyrir löngu fest sig í sessi og er ávallt á frídegi verslunarmanna.

Kristján Þór Einarsson sigraði á mótinu árið 2014. Hann sló öðrum við í gær og sigraði í annað sinn. Fuglalífið á Nesvellinum er vel þekkt en Kristján virtist hafa mestan áhuga á örnum. Fékk hann örn á 1. holunni þegar hann vippaði í holuna í öðru höggi. Á 3. holunni sem er par 5 sleikti vipp hans holubarminn og rétt missti hann því af erni. Á 4. holunni sló Kristján yfir fjöruna og inn á flöt. Púttið fyrir erninum stoppaði við holuna. Kristján var því á fjórum höggum undir pari eftir fjórar fyrstu holurnar og var með öðrum orðum sjóðandi heitur.

„Mér finnst ótrúlega gaman að spila með svo marga áhorfendur á eftir mér. Það er kannski leiðinlegt að maður upplifi það bara einu sinni á ári því maður nær aldrei að spila eins og maður á Íslandsmótinu. Það er skemmtilegt að heyra ópin og veinin þegar maður rétt missir púttin. Virkilega gaman að þessu móti,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið en hann hafði betur gegn Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni í einvígi eftir að þeir fengu báðir par á síðustu holunni.

Sjá greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert