Fyrsti risatitillinn á síðasta risamóti ársins

Justin Thomas með bikarinn.
Justin Thomas með bikarinn. AFP

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas tryggði sér í gærkvöldi sinn fyrsta sigur á risamóti þegar hann bar sigur úr býtum á PGA-meistaramótinu í golfi, síðasta risamóti ársins.

Thomas var tveimur höggum á eftir Kevin Kisner fyrir lokahringinn, en spilaði hann á 68 höggum eða þremur undir pari og vann mótið með tveggja högga mun. Hann spilaði samtals á átta höggum undir pari en þeir Francesco Molinari, Patrick Reed og Louis Oosthuizen voru jafnir í öðru sæti á sex undir pari.

Thomas, sem er í 14. sæti heimslistans, fékk tvo fugla á fyrstu þremur holunum á lokahringnum en fékk að lokum sex fugla á hringnum. Dramatíkin á 10. holu var til að mynda æsileg en þá stóð boltinn á holubrúninni í 15 sekúndur áður en hann datt og tryggði fugl.

Thomas er áttundi kylfingurinn á síðustu níu risamótum sem vinnur sinn fyrsta risatitil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert