Guðrún Brá og Valdís reyna við LPGA

Guðrún Brá Björgvinsdóttir reynir við atvinnumennskuna.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir reynir við atvinnumennskuna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili mun reyna við atvinnumennskuna á fimmtudag. Þar hefur hún leik ásamt Valdísi Þóru Jónsdóttur á úrtökumóti fyrir LPGA-mótaröðina. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leikur á henni en hún hefur nú þegar tryggt sér þátttökurétt á næsta tímabili.

Þetta er fyrsta stig úrtökumótsins, en alls eru stigin þrjú. Keppnin hefst á fimmtudag þar sem rúmlega 350 keppendur munu keppa á þremur keppnisvöllum. Leiknir verða fjórir hringir eða 72 holur í vikunni, en alls komast 90 efstu kylfingarnir komast áfram á annað stig úrtökumótsins.

Lokaúrtökumótið fer fram 27. nóvember til 3. desember, en Ólafía gæti þurft að leika á því til að fá fullan þátttökurétt á næsta tímabili þar sem hún situr í 106. sæti stigalista LPGA. 100 efstu kylfingar stigalistans fá fullan þátttökurétt í mótaröðinni á næsta tímabili, en sæti 101-125 fá takmarkaðan rétt og þurfa að leika í lokaúrtökumótinu og eiga þá möguleika á að tryggja sér fullan þátttökurétt.

Leiki Ólafía vel á næstu mótum í LPGA-mótaröðinni og komist í topp 100 á stigalistanum verður hún ekki með á mótinu í desember.

Valdís Þóra lék á úrtökumótinu í fyrra en komst ekki í gegn, Ólafía tryggði sér þátttökurétt í mótaröðinni síðasta haust með góðri spilamennsku á úrtökumótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert