Frábær spilamennska Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék frábærlega á lokahring Evian-meistaramótsins í golfi í Frakklandi í dag, en mótið er síðasta risamót ársins í LPGA-mótaröðinni. Ólafía lék á pari í dag og þeim árangri gátu ekki margir kylfingar státað sig af í dag.

Átján af þessum bestu kylfingum í heimi léku undir pari í dag. Ólafía hóf leik í 64. sæti í dag en vann sig upp í 48. sætið.

Hún hóf þó ekki leik mjög vel. Fékk fugl á þriðju holunni en á 5., 6., 7. fékk hún tvo skolla og einn skramba – komin á +6. Hún svaraði á 9. holu með fugli en fékk aftur skolla á þeirri 11. Við tóku hins vegar þrír fuglar á síðustu sjö holunum og 71 höggs hringur á parinu staðreynd en hún lauk leik á samtals þremur höggum yfir pari.

Ólafía mun með árangrinum líkega færa sig upp um eitt sæti á styrkleikalista LPGA-mótaraðarinnar, úr því 79. í 78. sætið, en efstu 100 kylfingarnir fá keppnisrétt í mótaröðinni á næsta ári.

Árangurinn á Evian-meistaramótinu hjá Ólafíu um þessa helgi helst í hendur við frábæran árangur hennar um síðustu helgi er hún lenti í 4. sæti á Indi Women-mótinu sem er hennar besti árangur í ár.

Aðeins voru leiknir þrír hringir á Evian-meistaramótinu í ár þar sem fella þurfti niður fyrsta hringinn vegna veðurs.

Ólafía í Frakklandi - lokahringur opna loka
kl. 14:35 Textalýsing 18 -  PAR:  Ólafía fær par á lokaholunni sem er par 5 Hún lék á pari í dag þar sem aðeins örfáir kylfingar náði betri árangri á vellinum í dag. Frábær árangur! Staðan: +3, 48.-57. sætið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert