Íslendingarnir komust áfram

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í eldlínunni í Danmörku.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í eldlínunni í Danmörku. Ljósmynd/Golf.is

Þrír íslenskir atvinnukylfingar hófu leik í dag í úrslitakeppni Nordic Tour-mótaraðarinnar, sem er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

Þeir eru Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR) og Axel Bóasson (GK). Þeir komust allir áfram í gegnum niðurskurðinn sem var í dag að loknum fyrsta keppnisdeginum þar sem leiknar voru 2×12 holur og komust 32 efstu kylfingarnir áfram.

Þeir tveir síðastnefndu eru í hörkubaráttu um að vera í fimm efstu sætum stigalistans sem tryggja keppnisrétt í Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.

Guðmundur Ágúst er á -4 samtals en hann lék á 46 og 44 höggum. Hann er sem stendur í 10. sæti. Axel er í 20. sæti en hann lék á -3 samtals. Haraldur Franklín lék á -2 samtals og er hann í 25.-32. sæti en alls komust 32 kylfingar áfram í gegnum fyrsta niðurskurðinn.

Á morgun verða leiknar 12 holur og komast þá 12 efstu áfram. Eftir fjórða hringinn sem er einnig 12 holur komast fjórir efstu áfram í gegnum niðurskurðinn. Lokahringurinn verður síðan 6 holur, þar sem fjórir kylfingar keppa um sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert