Axel fagnaði sigri og er efstur á stigalistanum

Axel Bóasson.
Axel Bóasson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kylfingurinn Axel Bóasson úr Keili, Íslandsmeistari í höggleik, stóð uppi sem sigurvegari á Twelve Championship-mótinu í golfi sem lauk í Danmörku í dag en mótið var hluti af Nordic Tour-mótaröðinni.

Axel lék á samtals 15 höggum undir pari en mótafyrirkomulagið var þannig að spilaðir voru fjórir 12 holu hringir og var niðurskurður eftir eftir hvern hring. Eftir hringina fjóra léku fjórir kylfingar til úrslita og þar sem stóð Axel uppi sem sigurvegari.

Axel hefur nú sigrað á tveimur mótum á tímabilinu á Nordic Golf-mótaröðinni og er kominn í efsta sæti stigalistans og svo gott sem búinn að tryggja sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsti ári en hún er sú næststerkasta í Evrópu.

Haraldur Magnús Franklín endaði í 29. sætinu á mótinu í dag á pari og Guðmundur Ágúst Kristjánsson varð í 32. sæti á einu höggi yfir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert