Valdís áfram í miklu stuði

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Golli

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir heldur áfram frábærri spilamennsku sinni á Sanya-mótinu á Evrópumótaröðinni í golfi sem fram fer á Hainan eyju í Suður-Kínahafi. Valdís Þóra er komin í 2. sætið á mótinu sem er nú hálfnað en hún lék annan hringinn á 69 höggum .

Valdís lék fyrsta hringinn á 68 höggum og var þá í þriðja sæti en hélt uppteknum hætti í nótt og safnaði fuglum.

Valdís fékk heila sjö fugla á hringnum og þrjá skolla og lék á þremur höggum undir pari vallarins. Hún er samtals á sjö höggum undir pari og er höggi frá hinni frönsku Celine Boutier sem er á -8. Prima Thammaraks frá Taílandi er í 3. sæti á -6 ásamt Solar Lee frá Suður-Kóreu.

Valdís Þóra er í feiknastuði þessa dagana en hennar besti hringur á mótaröðinni í heild sinni kom á fyrsta hringnum á Hainan eyju. Árangurinn á öðrum hringnum í nótt er aðeins höggi síðri. Nóg er hins vegar eftir af mótinu sem er hálfnað en besti árangur Valdísar á Evrópumótaröðinni sjálfri er 49. sætið á opna Hero-mótinu á Indlandi.

Valdís er í 113. sæti á stigalista mótaraðarinnar en stefnir á 80. sætið og er tæpum 8900 evrum frá því takmarki. Verði Valdís í einu af efstu fimm sætunum er ljóst að hún muni staka stórt stökk í átt að því takmarki. Verðlaunafé fyrir 2. sætið á móti með sambærilegt heildarverðlaunafé fyrr á mótaröðinni var t.d. 22.500 evrur, 13.500 evrur fengust þar fyrir fjórða sætið og yfir 10 þúsund evrur fyrir 5. sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert