„Ég set markið hátt“

Ólafía með verðlaunagripinn á sviðinu í Hörpu í kvöld.
Ólafía með verðlaunagripinn á sviðinu í Hörpu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrir mig er mikill heiður að vera ein þessara kvenna sem hlotið hafa þessa nafnbót,“ sagði íþróttamaður ársins, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, þegar mbl.is ræddi við hana í Hörpu í kvöld.  

Ólafía hafnaði í 3. sæti í kjörinu í fyrra eftir að hafa þá unnið sér inn keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni fyrst Íslendinga en fékk nú flest atkvæði eftir viðburðaríkt ár á mótaröðinni en Ólafía lék auk þess á þremur risamótum af fimm í golfinu á árinu. Ólafía sagði þá tilhugsun að hljóta nafnbótina hafa verið sér fjarlæga þegar hún komst fyrst á hófið fyrir nokkrum árum sem kylfingur ársins. Í fyrra hafi hún hins vegar færst mun nær 1. sætinu. 

„Fyrst þegar ég mætti hingað fyrir nokkrum árum hugsaði ég ekki út í þetta. Í fyrra hafnaði ég í 3. sæti í kjörinu og þá fyrst velti ég þessu eitthvað fyrir mér enda var ég þá komin nær þessu,“ útskýrði Ólafía og hún er full sjálfstrausts nú þegar nýtt keppnistímabil er handan við hornið. 

„Ég fer inn í keppnistímabilið 2018 tilbúnari en ég var í byrjun þessa árs og með meira sjálfstraust. Ég set markið hátt,“ sagði Ólafía en þar sem hún er brautryðjandi á bandarískri mótaröð þá dró hún mikinn lærdóm af þessu ári varðandi hvernig best sé að skipuleggja sig. Því fylgja alls kyns vangaveltur en keppnistímabilið stendur frá janúar og fram í október. Þar af leiðandi þarf að velta fyrir sér hvaða mót er rétt að velja, hvenær er heppilegast að hvíla, hversu mikinn aðgang fjölmiðlar eiga að hafa að henni og ýmislegt fleira. 

„Ég mun skipuleggja mig betur og það er ýmislegt sem ég get bætt frá þessu ári. Ætli megi ekki segja að nálgun mín verði gáfulegri í þetta skiptið,“ sagði Ólafía og brosti. 

Nánar er rætt við Ólafíu í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka