Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann Írland með gífurlegum yfirburðum í undankeppni heimsmeistaramótsins í Digranesi í dag, 67:3. Staðan í hálfleik var 34:3 og íslenska liðið fékk því ekki á sig mark í seinni hálfleiknum sem er fáheyrt í handboltaleik.
Eins og sést á úrslitunum eru Írar hreinir byrjendur í íþróttinni en aðeins átta leikmenn eru með í för hjá þeim. Írska liðið steinlá fyrir Serbum í fyrsta leiknum í gær, 64:4, þannig að það lá ljóst fyrir að íslensku stúlkurnar ættu afar auðvelt verkefni fyrir höndum.
Hildur Þorgeirsdóttir skoraði 13/2 mörk í leiknum í dag, Karólína Gunnarsdóttir 9, Stella Sigurðardóttir 6, Sara Sigurðardóttir 6, Sunna Jónsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Auður Jónsdóttir 5, Karen Knútsdóttir 4, Sunna María Einarsdóttir 4, Rebekka Rut Skúladóttir 3, Rut Jónsdóttir 3/1, Hildigunnur Einarsdóttir 2.
Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir varði 6 skot í fyrri hálfleik og Guðrún Ósk Maríasdóttir 6 skot í síðari hálfleik. Írar hittu því aðeins 15 sinnum á mark Íslands í öllum leiknum.
Ungverjaland sigraði Búlgaríu, 47:20, í fyrri leik dagsins og er með 4 stig eftir tvo fyrstu keppnisdagana. Serbía og Ísland eru með 2 stig en Búlgaría og Írland eru án stiga.
Ísland leikur við Serbíu í Digranesi á morgun klukkan 16.30 en á undan, eðga klukkan 14.30, mætast Búlgaría og Írland.