Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar í Rhein Neckar Löwen unnu eins marks sigur á Magdeburg í háspennuleik í SAP íþróttahöllinni í Mannheim í kvöld að viðstöddum 13.600 áhorfendum, lokatölur 26:25. Tapið gerði vonir leikmanna Magdeburg um að komast upp í 2. sæti þýsku 1. deildarinnar að engu. RN Löwen situr í 7. sæti, 11 stigum á eftir Kiel sem trónir á toppnum.
Guðjón Valur skoraði þrjú marka Rhein Neckar Löwen að þessu sinni en liðið hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 16:12. Leikmenn Magdeburg voru grimmir í síðari hálfleik og náðu að jafna, 23:23, þegar skammt var til leiksloka. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin undir lokin en allt kom fyrir ekki. Sigurmarkið skoraði Uwe Gensheimer en hann var jafnframt markahæstur leikmanna RN Löwen með 9 mörk.
Einar Hólmgeirsson átti fínan leik og skoraði sex mörk þegar Grosswallstadt sótti tvö stig í heimsókn sinni til nágrannaliðsins, Wetzlar, 34:32. Grosswallstadt er í 11. sæti með 14 stig.
Staðan í þýsku 1. deildinni í handknattleik.