„Þetta er í einu orði sagt stórkostlegt,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel, þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gærkvöldi eftir að hann hafði stýrt liði sínu til sigurs í Meistaradeild Evrópu í handknattleik með sigri á Barcelona, 36:34, í úrslitaleik í Köln að viðstöddum nærri 20.000 áhorfendum í hreint rífandi stemningu.
„Eftir að hafa átt undir högg að sækja fyrstu 40 mínútur leiksins og sex mörkum undir þá tókst okkur að snúa algjörlega við blaðinu. Þetta minnti svolítið á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni sem við töpuðum í fyrra fyrir Ciudad Real. Þá voru við með vænlega stöðu korteri fyrir leikslok en máttu sjá sigurinn ganga okkur úr greipum á endasprettinum. Nú snerust hlutverkin við,“ sagði Alfreð sigurreifur þar sem hann var staddur í gleðskap ásamt leikmönnum sínum og forráðamönnum Kiel.
Sjá nánar ítarlegt viðtal við Alfreð Gíslason í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.