Flautað verður til leiks í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld með heilli umferð, fjórum leikjum.
Leikmenn Aftureldingar og deildarmeistarar Akureyrar handboltafélags ríða á vaðið að Varmá í Mosfellsbæ klukkan 18.30. Klukkustund síðar hefjast síðan þrír leikir. Nýliðar Gróttu taka á móti bikarmeisturum Vals í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi. HK mætir Haukum í Digranesi og loks leiða Íslandsmeistarar FH og Framarar saman hesta sína í Kaplakrika í leik umferðarinnar að margra mati.
Talsverð eftirvænting ríkir fyrir viðureignina í Kaplakrika. Miklar breytingar hafa átt sér stað á báðum liðum frá því í fyrra. FH-ingar sáu á bak átta leikmönnum í sumar eftir að hafa fagnað sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í handknattleik karla í 19 ár. Meðal þeirra sem farnir eru má nefna Ólaf Andrés Guðmundsson, Ásbjörn Friðriksson, Loga Geirsson og Sigurgeir Árna Ægisson. Til þess að fylla í skörðin hafa m.a. komið Ragnar Jóhannsson, markahæsti leikmaður N1-deildarinnar í fyrra, Andri Berg Haraldsson og Hjalti Pálmason.
Fram-liðið hefur einnig gengið í gegnum miklar breytingar frá síðustu leiktíð þar sem a.m.k. fimm leikmenn hafa róið á önnur mið. Fjórir leikmenn hafa gengið í raðir Safamýrarliðsins fyrir leiktíðina, þar á meðal landsliðsmaðurinn Ingimundur Ingimundarson.
Akureyringar stilla upp nær óbreyttu liði frá síðustu leiktíð þegar þeir urðu deildarmeistarar og höfnuðu í öðru sæti í bikarkeppninni og í úrslitakeppninni. Sömu sögu er ekki hægt að segja af Mosfellingum.
HK hefur styrkt lið sitt frá síðasta keppnistímabili en Haukar hafa hinsvegar orðið fyrir skakkaföllum og m.a. séð á bak tveimur markahæstu leikmönnum sínum á síðustu leiktíð.