Gunnar: Vantaði herslumuninn

„Það vantaði herslumuninn upp hjá okkur að þessu sinni eftir að hafa verið komnir í í mjög góða stöðu," sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, eftir naumt tap, 25:23, fyrir Aftureldingu í lokaumferð 1. deildar karla í handknattleik en leikið var að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.

Selfoss var í þriðja sæti fyrir leikinn og hafnaði í því sæti og mætir Stjörnunni í fyrstu umferð umspils um sæti í úrvalsdeildininni sem hefst 24. apríl. Stjarnan vann ÍH í lokaumferðinni í kvöld, 36:22, og hafnaði í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Aftureldingu sem varð deildarmeistari og leikur í úrvalsdeild á næsta keppnistímabili.

„Við náðum að loka vel á Aftureldingarmenn í vörninn. En þegar á leið þá náðu Aftureldingarmenn að loka fyrir sóknina hjá okkur og þá hálffrjósum við.  Þá fengu Mosfellingar nokkur auðveld mörg eftir hraðaupphlaup og hraða miðju og á því unnu þeir. Því fór sem fór," sagði Gunnar.

Gunnar segir sína menn fara óhrædda í umspilsleiki við Stjörnuna. Þá segir Gunnar mikinn efnivið vera fyrir hendi á Selfossi. Allir leikmenn liðsins eru uppaldir hjá félaginu auk þess sem efnilegir leikmenn séu í yngri flokkunum.

Nánar er rætt við Gunnar á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert