Landsliðsþjálfari Bosníu er óhræddur

Marcovic telur lið Bosníu geta lagt það íslenska að velli …
Marcovic telur lið Bosníu geta lagt það íslenska að velli í forkeppni HM. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsliðsþjálfari Bosníu í handknattleik karla, Dragan Markovic, er fullur sjálfstrausts eftir gott gengi í forkeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik snemma á þessu ári.

Hann segir við fjölmiðla í heimalandi sínu að undirbúningur fyrir væntanlega leiki við íslenska landsliðið, sem fram fara í júní, sé löngu hafinn. Úrslit leikjanna tveggja skera úr um hvort það verður íslenska landsliðið eða landslið Bosníu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í janúar á næsta ári.

„Íslendingar eru með gott lið og þeir eru taldir sigurstranglegri í leikjunum við okkur. Ég hef hins vegar bullandi trú á mínum mönnum og er viss um að við getum unnið,“ sagði Markovic í vikunni.

„Margir kvarta og kveina og líst ekkert á andstæðinginn. Það er hins vegar ekki í mínu eðli að kvarta og kveina. Sjálfstraust er mitt aðal,“ sagði Markovic sem þekkir vel til handknattleiks í Evrópu en hann lék árum saman í Þýskalandi og þjálfaði þar einnig, m.a. Wetzlar.

Mikill uppgangur hefur verið í handknattleik í Bosníu á síðustu árum og m.a. hefur landslið skipað leikmönnum sem fæddir eru 1991 og 1992 náð afar athyglisverðum árangri á síðustu árum en þeir eru uppistaða landsliðs Bosníu í dag.

Ljóst er að Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, og lærisveinar hans verða að búa sig vel undir leikina sem fram fara í Sarajevo 7. júní og í Laugardalshöll 15. júní. iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert