Kiel burstaði Metalurg í Skopje

Aron Pálmarsson var öflugur í liði Kielar gegn Metalurg Skopje …
Aron Pálmarsson var öflugur í liði Kielar gegn Metalurg Skopje í dag. AFP

Þýska handboltafélagið THW Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar gerði sér lítið fyrir og vann Metalurg Skopje, 31:21 á útivelli í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Leikur liðanna í dag var leikinn í Makedóníu.

Kiel var betra liðið allan tímann og skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins og hafði svo yfir í hálfleik, 14:9, þó svo að Metalurg hefði jafnað í 8:8. Kiel jók forskot sitt jafnt og þétt í síðari hálfleik og þegar yfir lauk munaði tíu mörkum á liðunum, úrslitin 31:21 fyrir Kiel.

Aron Pálmarsson skoraði 7 mörk fyrir Kiel en Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með 8 mörk. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 1 mark fyrir Kiel.

Síðari leikur liðanna verður í Kiel eftir rúma viku, eða sunnudaginn 27. apríl. Það lið sem hefur betur samanlagt úr leikjunum tveimur kemst í Final 4 úrslitakeppnina í Köln um mánaðamótin maí/júní. Kiel kom sér því í vænlega stöðu með útisigrinum í dag og nánast öruggt í úrslitakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert