Ísland komst ekki á HM

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæsti leikmaður íslenska liðsins í undankeppninni.
Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæsti leikmaður íslenska liðsins í undankeppninni. Ómar Óskarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði lokaleik sínum í undankeppni heimsmeistaramótsins í dag þegar liðið mætti Slóveníu, lokatölur, 28:23. Þar með tapaði íslenska liðið öllum þremur viðureignum sínum í undankeppninni sem fram fór í Víkinni.

Rúmenar unnu alla leiki sína og Slóvenar unnu tvo leiki af þremur og fara þar með á heimsmeistaramótið sem haldið verður í Króatíu í sumar. Landslið Úkraínu og Íslands sitja eftir. 

Fyrir leikinn í dag átti íslenska landsliðið möguleika á að tryggja sér keppnisrétt á HM með því að vinna leikinn við Slóvena með a.m.k. fjögurra marka mun. Fljótlega var ljóst að það yrði við ramman reip að draga því lið Slóvena náði yfirhöndinni snemma leiks og var auk þess með markvörð í miklu stuði. Íslenska liðið átti erfitt uppdráttar og varð að bíta í það súra epli að vera í eltingaleik allan leiktímann.

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sex mörk og var markahæst. Áróra Eir Pálsdóttir skoraði þrjú mörk, Thea Imani Sturludóttir, Eva Björk Davíðsdóttir, Bryndís Elín Halldórsdóttir og Sigrún Jóhannsdóttir tvö mörk hver. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Hekla Rún Ámundadóttir skoruðu eitt mark hvor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert