Aðalsmerki liðsins ekki til staðar

Íris Björk Símonardóttir, markvörður Gróttu.
Íris Björk Símonardóttir, markvörður Gróttu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íris Björk Símonardóttir sagði andlegu hliðina hafa brugðist hjá leikmönnum Gróttu í Garðabænum í kvöld þar sem liðið náði sér ekki á strik og tapaði 29:23 fyrir Stjörnunni. 

Var þetta fyrsti leikur liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik. Íris lék vel í marki Gróttu, sérstaklega í fyrri hálfleik, en samherjar hennar töpuðu boltanum hins vegar alltof oft í sókninni til þess að eiga raunhæfa möguleika á sigri. 

„Fyrir leikinn hafði ég ekki áhyggjur af spennustiginu því mér fannst við vera frekar rólegar. Við höfðum farið vel yfir leik Stjörnuliðsins og því kom ekkert okkur á óvart. Við fórum bara á taugum í seinni hálfleik en ég veit ekki ástæðuna ef ég á að segja alveg eins og er. Við spiluðum eins og við værum fimmtán mörkum undir en ekki þremur. Við vorum ágætlega inni í leiknum í fyrri hálfleik en misstum alveg tökin í síðari hálfleik. Þá völtuðu þær yfir okkur. Við töpuðum boltanum oft klaufalega og þær keyrðu í bakið á okkur. Þá fór forskotið úr þremur mörkum í tíu mörk,“ benti Íris á en að loknum fyrri hálfleik var staðan 13:10 fyrir Stjörnuna. Eins og Íris segir þá lagði Stjarnan grunninn að sigrinum í upphafi síðari hálfleiks. 

„Við þurfum að skoða hvernig við komum stemmdar í síðari hálfleikinn. Mér finnst þetta vera í hausnum á okkur. Okkar aðalsmerki hingað til hefur verið stemning og leikgleði en það var bara ekki til staðar. Fyrir vikið vantaði alla baráttu hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert