Ekki séð svona stemningu síðan við urðum meistarar

„Ég er bara ánægður, ég skilaði alla vega einhverju. En það er einn leikur eftir og ekkert hægt að gleyma sér í gleðinni,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson sem fór á kostum í marki FH í kvöld þegar liðið vann Hauka, 22:19, og komst í 2:0 í undanúrslitaeinvígi Hafnarfjarðarliðanna í handknattleik.

Ágúst þurfti að fylla í stórt skarð þegar Daníel Freyr Andrésson braut bátsbein í desember síðastliðnum. Daníel hefur síðan verið frá keppni en hann hefur verið á bekknum í báðum leikjunum gegn Haukum og veitt Ágústi góð ráð, eða alla vega „bankað á hausinn á honum“, eins og Ágúst orðaði það sjálfur.

Ágúst náði sér eins og fyrr segir afar vel á strik í kvöld, varði 17 skot og þar á meðal 2 vítaköst. Frammistaða hans féll vel í kramið hjá þeim fjölmörgum FH-ingum sem voru í Kaplakrika í kvöld.

„Ég hef ekki séð svona stemningu hérna síðan við urðum Íslandsmeistarar. Þetta boðar gott fyrir klúbbinn og það er alveg ógeðslega gaman að spila í þessu,“ sagði Ágúst. Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert