FH-ingar með annan fótinn í úrslitin

Deildarmeistarar Hauka eru komnir með bakið upp við vegg eftir annað tap gegn FH í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik, í Kaplakrika í kvöld. Lokatölur urðu 22:19 í æsispennandi leik.

FH vann fyrsta leikinn á Ásvöllum í fyrrakvöld og er því komið í 2:0 í einvíginu. Liðin mætast þriðja sinni á Ásvöllum á sunnudaginn.

Haukar komust í 4:1 á fyrstu tíu mínútum leiksins en FH-ingar tóku smám saman betur við sér og komust í 11:8 fyrir hálfleik, þrátt fyrir að fá til að mynda sex brottvísanir. Miklu munaði um frammistöðu hins unga Ágústs Elís Björgvinssonar í marki FH en hann varði 9 skot í fyrri hálfleik, þar á meðal 2 vítaköst.

FH komst mest í 15:10 en þá skoruðu Haukar fimm mörk í röð og spennan var mikil í leiknum eftir það. Undir lokin skoraði Sigurður Ágústsson þrjú gríðarlega mikilvæg mörk í röð af línunni fyrir FH á meðan að Haukum gekk illa að finna leiðina framhjá Ágústi. Þeir fengu tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar um 50 sekúndur voru eftir en tókst ekki að nýta það og leikurinn fjaraði svo út.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl við Patrek Jóhannesson þjálfara Hauka og Ágúst Elí Björgvinsson, markvörð FH, koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

FH 22:19 Haukar opna loka
60. mín. FH tapar boltanum Misheppnuð línusending.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert